Wednesday, January 25, 2012

Byrjunin - sagan öll

Jæja, þá ákvað ég að kannski væri gott að hafa þessa veikinda sögu mína skráða niður áður en ég gleymi henni. Svo að hér kemur tilraun til að setja söguna skipulega og skiljanlega fram:
Mjólkuróþolið:
Til að byrja með er ágætt að útskýra hvað mjólkur(sykur)óþol er. Mjólkuróþol, líka kallað mjólkursykuróþol, liggur í því að líkamann skortir ákveðið ensím í meltingarveg til að geta melt mjólkursykur. Mjólkursykur finnst í flestum mjólkurmat, en er oft í minna mæli í unnum mjólkurmat og alls ekki til staðar í sumum, eins og t.d. hörðum ostum. Núorðið er farið að framleiða nokkrar tegundir af mjólkurmat þar sem mjólkursykurinn hefur verið brotinn niður og hentar maturinn því mörgum sem hafa mjólkuróþol, Létt súrmjólk er t.d. dæmi um þetta. Einkenni mjólkuróþols (hjá mér, ég útiloka ekki önnur einkenni) eru að mjólkursykurinn fer ómeltur í gegnum líkamann og endar í miklum vindverkjum og að lokum í niðurgangi þar sem líkaminn skilar þessari afurð frá sér ómeltri ca. hálftíma eftir inntöku.
Áður
Ég hef verið með mjólkuróþol frá því að ég man eftir mér, en sem krakki háði það mér ekki mikið. Ég gat ekki drukkið hreina mjólk, en ég borðaði allan mjólkurmat, t.d. skyr, jógúrt oþh, og ég gat líka drukkið kakómalt og borðað mjólkina út á morgunkorn (í dag finnst mér þetta mjög undarlegt og hljóma mjög ó-mjólkuróþolslega!). Þegar ég var um tvítugt var ég að vinna á leikskóla og þar fór ég að finna meira fyrir mjólkuróþolinu. Ég var hætt að þola mjólkurmat, sérstaklega í miklu magni, eins og t.d. ef skyr var í matinn. Um þetta leyti (ca. 1997-1998) fórum við hjónin (þá hjónaleysin) í ferð til Bandaríkjanna að heimsækja frænda mannsins míns. Frændinn er læknir og hann benti mér á Lact-aid töflurnar. Þær eru töflur fyrir mjólkuróþolsfólk. Í Lact-aid er s.s. að finna þetta ákveðna ensím sem brýtur niður mjólkursykurinn og því nægir að taka þessar töflur í byrjun máltíðar sem inniheldur mjólkursykur. Þessar töflur fengust mjög stopult til að byrja með hérna á Íslandi og því keypti ég þetta aðallega í USA, en stundum hérna heima á uppsprengdu verði! Þetta gat ég gert í nokkur ár án vandræða. Ég gat ekki hugsað mér að taka allar mjólkurvörur út og fannst hræðilegt að fara t.d. í afmæli eða önnur matarboð og geta ekki borðað matinn sem var í boði, því flestur matur sem boðið er uppá í afmælis- eða matarboðum inniheldur yfirleitt mikið af mjólk og mjólkuvörum. Fram liðu stundir og ég lifði svona þægilega í nokkuð mörg ár. Nokkrum sinnum tók ég þó eftir því að ef ég neytti áfengis og borðaði mjólkurvörur fékk ég í magann og endaði á klósettinu eins og ég hefði í raun ekki tekið töflu og að mjólkursykurinn væri að fara ómeltur í gegn. Ég gat ekki fundið neina útskýringu á þessu og undir það síðasta var ég bara farin að reyna að sneiða hjá mjólkurvörum eins og ég gat, ef ég var að neyta áfengis.
Að öðru leyti var meltingin mín fín. Ég hafði hægðir kannski sjaldnar en flestir, en þær komu á ca. 2-3 daga fresti. Þær voru alltaf vel formaðar og aldrei var vandamál að koma þeim frá mér (mikið er þetta skemmtilegt umræðuefni!). En þetta var bara það auðveldasta í heimi, ef mér var mál, þá fór ég á klósettið og gerði mínar þarfir og fór út. Þetta gat ég gert hvar sem er og hvenær sem er. Ég gerði oft mikið grín að manninum mínum fyrir að þurfa sitt næði og sinn tíma!
Ný vinna og ný líðan
Árið 2007, þegar ég var 31ns árs og búin að eignast tvö börn, skipti ég um vinnu. Ég hafði verið að kenna í 1 ár, en snéri mér aftur að bókhaldi þar sem ég vildi rólegri vinnu og styttri vinnudag. Það vildi þannig til að 2 vikum eftir að ég byrjaði í nýju vinnunni fórum við fjölskyldan í 2ja vikna frí til Mallorca. Í kjölfarið á þessari ferð fór ég að finna fyrir óþægindum í maga/ristli sem ég rakti ætíð beint aftur til þessarar ferðar. Ég vissi ekki hvað það gæti verið sem væri að orsaka þetta, en helstu einkennin voru uppþemba og hægðartregða. Það var dagamunur á mér, suma daga leið mér ágætlega, en aðra (og þeir voru í meirihluta) leið mér eins og maginn ætlaði að springa af uppþembu. Með þessu komu líka krampar og ég átti erfitt með að koma frá mér bæði hægðum og lofti.
Læknaheimsóknir
Ég byrjaði á því að fara í læknaheimsókn til heimilislæknisins míns haustið 2007 þegar ég var búin að vera með hægðartregðu síðan um sumarið. Hann ráðlagði mér að prófa Husk fræ, sem eru Psyllium fræhýði og eru blönduð við vökva til að örva ristilinn og koma á betri gangi hægðanna. Ég fór eftir leiðbeiningum á umbúðum, en þá daga sem ég tók þetta hafði mér sjaldan liðið jafn illa! Svo ég hætti því.
Heimaráð
Allir vildu ólmir hjálpa, svo ég fékk ótal ráð um hvernig skildi laga hægðartregðu. Eitt ráðið var að drekka kaffi, annað var að borða appelsínu, enn eitt ráðið (sem virðist vera alls ráðandi í hugsunum fólks við hægðartregðu og er viðurkennt) var að borða mikið af grófum trefjum. Það er skemmst frá því að segja að með hverju ráðinu leið mér verr og verr. Uppþemban jókst og kramparnir urðu sem aldrei fyrr.
Frekari læknisheimsóknir
Þegar ég áttaði mig á því að ég var farin að nota hægðarlosandi lyf oft í viku og var ekkert að skána af þessari skrítnu "magapest" sem ég fékk á Spáni ákvað ég að koma mér aftur til læknis. Þetta hefur verið snemma árs 2008, ca. janúar-mars. Þá er ég búin að vera þjáð af þessu í rúmt hálft ár. Heimilislæknirinn minn sendi mig áfram til meltingarsérfræðings sem setti mig í ristilspeglun. Það kom ekkert óeðlilegt útúr henni, öll sýni sem voru tekin voru góð, og hann sendi mig á brott með greininguna "Latur ristill" og miða uppá að kaupa lyf sem heitir Magnesia Medic í apóteki. Þetta sagði hann að ég gæti tekið daglega án þess að hafa áhyggjur af aukaverkunum til langs tíma. Þetta var gott og blessað og þarna kom loksins eitthvað sem hjálpaði mér. Ég gat farið að hafa hægðir reglulega aftur! Þetta var þó skammgóður vermir, því þó að hægðartregðan lagaðist við þetta, lagaðist ekki uppþemban og kramparnir.
Seinna um vorið 2008 fór ég einnig til hómópata. Hún rannsakaði mig með ákveðnu tæki og gaf mér svo lista til útprentunar yfir matartegundir sem hún sagði að færu illa í mig. Auk remedía sem ég átti að taka. Þar sem ég hef takmarkaða trú á svona lækningum hélt ég það ekki út að taka remedíurnar að neinu ráði, en listinn yfir matartegundirnar átti eftir að koma mér á óvart.
Eigin rannsóknir
Þegar þetta hjálpaði mér ekki að ná fullum bata fór ég að leita á netinu. Ég "gúgglaði" einkennin mín og leitaði að því sem átti við. Ég þurfti ekki að leita lengi (þó ég hafi leitað áfram eftir upprunalegan fund) þegar ég komst niður á heilkenni sem er kallað Irritable Bowel Syndrome á ensku (eða IBS), en á íslensku ku þetta útleggjast nokkurn veginn sem iðraóla (NB Ólga, ekki Bólga!). Ég leitaði betur og las mér til á nokkrum vefsíðum til að afla mér upplýsinga um hvernig mætti ráða við þetta heilkenni. Mér til undrunar fann ég afar lítið um efnið á íslensku og því las ég aðallega enskar síður. Ég fann eina síðu sem mér fannst hljóma skynsamlega og hún hefur hjálpað mér mikið. Það er síðan hennar Heather, helpforibs.com. Til að byrja með pikkaði ég út það sem "hentaði mér" að taka út en ég fór ekki eftir matarræðinu sem síðan mælir með að fullu.
Breyting á matarræði
Ætli það hafi svo ekki verið sumarið 2009 sem ég var orðin svo langþreytt á þessum verkjum að ég borðaði nánast ekkert nema núðlusúpur og brauð í öllu sumarfríinu mínu. Eftir mánuð þar sem mér leið virkilega vel en borðaði nánast ekkert nema hvítt hveiti ákvað ég að matarræðið þyrfti að taka í gegn á skynsamlegri máta. Næsta vetur á eftir 2009-2010 tók ég matarræðið á, en borðaði þó enn þann hádegismat sem var í boði í vinnunni. Ég drakk gos um helgar og leyfði mér oft að svindla á því sem ég vissi að ég ætti ekki að borða.
Ný vinna aftur og enn betri líðan
Haustið 2010 skipti ég aftur um vinnu þar sem ég gat fengið mjólkurlausan mat og þá batnaði mér enn frekar. Veturinn 2010-2011 var ég nokkuð góð, hélt áfram að leyfa mér það sem ég þoldi, drakk gos um helgar en var að mestu búin að taka mjólkurmat út. Það er svo núna haust 2011 sem ég fer að finna að það sem ég gat leyft mér áður að svindla á, gekk ekki lengur. Ég hætti að geta drukkið gos og fann að það var eitthvað meira farið að há mér en það sem ég var áður búin að taka út.
Staðan í dag, janúar 2012
Frá og með desember síðastliðnum er ég búin að finna það út að ég þarf að fara enn betur eftir matarræðinu frá Heather. Ég ætla ekki að útskýra matarræðið hér í smáatriðum, enda búin að gera það lauslega í öðrum pósti. En það sem ég þarf helst að forðast er t.d. allt rautt kjöt, gosdrykkir, sætuefni, kaffi, áfengi, olíur og fitur má bara nota í litlu magni. Ég þoli t.d. ekki að taka Lýsi. Margt grænmeti þarf ég að borða varlega en annað er gott.
Aðrir kvillar
Á leið minni að þessari niðurstöðu og könnun minni á matarræði hef ég einnig áttað mig á því að ég er mjög viðkvæm fyrir að fá sveppasýkingar og hef því að auki reynt að minnka magn af geri og sykri (þó það síðarnefnda sé erfiðara). Vonandi gengur þetta ágætlega og ég næ að halda mér góðri.

No comments:

Post a Comment