Nú er ég búin að gera annan skammt af marmelaði. Þar sem ég mundi ekki uppskriftina sem ég notaði síðast, þá slumpaði ég á þetta og útkoman er nokkuð fín. Ég notaði tvær appelsínur og meðhöndlaði þær eins og síðast, þe. reif börkinn utan af með rifjárni, tók svo hvíta hlutann af og henti. Skar bátana niður í frekar stóra bita og setti ca. helminginn af rifna berkinum með, en í þetta sinn setti ég aðeins botnfylli af vatni (appelsínurnar þöktu nokkurn veginn botninn á pottinum sem ég notaði svo vatnið flaut ekki yfir bitana). Ég stráði sykri yfir strax frá byrjun, en geri mér ekki alveg grein fyrir hversu mikið það var. Alla vega ekki 200gr. Kannski á milli 50-100 gr. Ég var ekkert að flýta mér, svo ég lét þetta sjóða alveg í kannski 1,5 klst. Á þeim tímapunkti var þetta orðið að frekar miklu mauki, en þó greinanlegir bitar. Tók þá allt yfir í annað ílát og maukaði með töfrasprota. Vegna miklu minna magns af vatni var þetta miklu þykkari en síðast. Ég setti svo aftur í pottinn og restina af berkinum í, sauð áfram í 5 mín. Nú fannst mér þetta frekar beiskt, svo ég bætti smá sykri við. Nú er bara að sjá hvernig útkoman er eftir að þetta kólnar.
Þess má kannski geta hvað krukkur varðar að þá hef ég bara safnað krukkum sem falla til á heimilinu. Ég sýð þær svo í vatni í smá stund og kæli svo. Ég set svo marmelaðið heitt í krukkurnar og lokið á og kæli við glugga þangað til það er stofuheitt. Þá ætti innsiglið á krukkunum að "poppa" niður aftur, svo þær eru nokkuð þéttar og marmelaðið ætti að geymast nokkuð vel.
No comments:
Post a Comment