Wednesday, February 15, 2012

Hvernig gengur

Fyrst ég er byrjuð að skrifa hér, er þá ekki ágætt að koma með póst um hvernig gengur?

Undanfarið hefur gengið mjög vel. Ég hef verið dugleg að taka allan mat sem inniheldur mjólkurvörur út, líka þar sem mjólk er í snefilmagni. Mér líður mjög vel, en þó eru ekki öll einkenni farin. En bara mjólkurmaturinn er stór þáttur, greinilega. Ég er líka búin að taka út allt rautt kjöt, þ.e. nautakjöt, lambakjöt og svínakjöt. Ég borða mikinn kjúkling og svo fisk. Fiskinn aðallega í vinnunni, en einstaka sinnum heima líka. Heima aðallega lax eða annan bleikan fisk, eða rækju eða túnfisk, t.d. í pastaréttum, súpum eða á brauð.

Ég fór til næringarráðgjafa sem sagði mér að mjólkuróþolið gæti bara einfaldlega orðið svo slæmt að ég þoldi ekki lengur litlu skammtana af mjólk eins og ég gerði áður. Það var fróðlegt að því leyti að fara til hennar, hún sagði mér líka að sykur og ger ætti ekki að hafa áhrif á sveppasýkingar, en annað gat hún lítið sagt mér. Ég fór í blóðprufu og átti að hringja í hana eftir 2 vikur til að fá niðurstöður um hvort ég væri með glúteinóþol. Það er víst í þessari viku, svo ætli sé ekki best að hringja á morgun, þó ég hafi litla trú á því að ég sé með glúteinóþol.

Ég er farin að venjast þessu mataræði rólega. Það sem mér finnst sérstaklega erfitt að sneiða hjá er ostur og annar mjólkurmatur. En kjötið er minna mál. Ég nota mikið kjúklingaskinku ofan á brauð, sem og grænmeit eins og gúrku og tómata. Ég drekk ennþá mikið kakó með soyamjólk, heitt eða kalt, aðallega kalt þessa dagana. Ég gerði líka merkilega uppgötvun um daginn. Ég hef svo oft verið að fá í magann eftir fisk máltíðir í vinnunni (eins og ég kom inná í pósti frá 11. des. síðastliðinn). Allt í einu kveiknaði á ljósi hjá mér, en það er að líklega hefur verið há-frúktasa maís sýróp (High fructose corn syrup=HFCS) í tómatsósunni sem kemur oft með fiskinum. HFCS er eitt af eitrunum sem Heather vill að maður sneiði hjá, annað slíkt eitur er MSG. Af báðu hef ég tekið eftir að ég fæ í magann. Eftir að ég tengdi þessa líðan mína við HFCS fór ég að lesa betur á umbúðir á t.d. tilbúnum sósum og tók eftir að þetta sýróp er í öllum BBQ sósum sem ég hef hingað til fundið. Þannig að ég ákvað að búa til mína eigin. Ég set hana e.t.v. hérna inn seinna, en aðallega er í henni púðursykur, sinnep og edik, auk eplamauks.
Jæja, þá er ég að hugsa um að njóta einhvers meiri matar, allt þetta tal um mat gerir mann svangan!

No comments:

Post a Comment