Monday, December 26, 2011

breyttar matarvenjur

Nú reynir á nýjar venjur um jólin. Er ad reyna ad hætta ad borda rautt kjöt. Er adallega ad spá hvernig thad gengur gagnvart ödru fólki. Verdur erfitt ad útskýra thad fyrir ödrum, t.d. thegar okkur er bodid í mat?

Sunday, December 18, 2011

Liggur vel á mér - marmelaði

Eftir frábæran árangur með kjúklingakæfuna ákvað ég að prófa mitt eigið marmelaði. Þar sem ég borða marmelaði ofan á brauð nánast á hverjum degi, ákvað ég að prófa að gera mitt eigið, sleppa þannig við aukaefnin. Ég var nokkuð efins fyrst þegar ég las þessa uppskrift en þetta heppnaðist ágætlega.

Appelsínumarmelaði
2 bollar vatn
2 appelsínur
200 gr sykur

Ég reif ysta lag barkarins af appelsínunum með grófu rifjárni.
Skrældi svo restina af berkinum (hvíta hlutann) af og henti.
Skar kjötið í stóra bita og sauð í vatninu ásamt berkinum af annarri appelsínunni í 30 mín.
Maukaði í matvinnsluvél (töfrasprota) þar til allt var mjúkt
Bætti restinni af berkinum við og sauð áfram í 5 mín.
Hellti sykrinum saman við og bull sauð í ca. 1-2 mín. (auk tímans sem það tók að ná upp suðu).
Hellti í krukkur og kældi
Marmelaðið er frekar þunnt og því hugsa ég að ég minnki magn af vatni í næstu umferð. En það er bragðgott og alls ekki síðra en búðarkeypt.

Meira um uppskriftir - kjúklingakæfa

Undanfarna daga hef ég prófað mig aðeins áfram með nokkra hluti. Ég gerði kjúklingakæfu. Þar sem ég er að reyna að forðast rautt kjöt eins og ég get. Hún heppnaðist bara vel. Hún var nokkurn veginn svona:

Kjúklingakæfa
2-3 kjúklingalundir
ca 1/2 bolli lífrænt kjúklingasoð
1 hvítlauksgeiri
handfylli af söxuðum blaðlauk
krydd eftir smekk, ég notaði steinselju, kalkúnakrydd og smá malað kóríander (man ekki hvort það var meira).

Allt soðið í litlum potti þar til kjúklingurinn er eldaður. Týnið kjúklinginn og laukinn uppúr soðinu og maukið í matvinnsluvél þar til allt er orðið að mjúku mauki. Soðinu bætt út í þar til kæfan er mátulega þykk. Sett í krukku og kælt. Þetta bragðast eins og venjuleg kindakæfa og áferðin er svipuð grófu íslensku kindakæfunni.

Uppskriftir

Nú er ég búin að liggja yfir uppskriftum að ýmsu, þar sem jólin nálgast óðum og þá er oft erfitt að sætta sig að geta ekki borðað eins og aðrir. Í kvöld prófaði ég uppskrift að soya vanillu ís, hér: http://www.helpforibs.com/messageboards/ubbthreads/showthreaded.php?Cat=&Board=recipe&Number=34556&page=&view=&sb=5&o=&vc=1 Uppskriftin virkar örugglega mjög vel sem vanillubúðingur líka, þá bara kælt í ísskáp, en ekki fryst. Ísinn er ennþá að taka sig en hann lofar góðu. Það er frekar ríkt vanillu bragð af honum, svo ég myndi jafnvel prófa að hafa minni vanillu næst. Ég á heldur ekki ísvél, svo að ég kældi hann bara fyrst í ísskáp í uþb. 1/2 tíma og hrærði svo í honum áður en ég flutti hann yfir í frysti. Eftir það hrærði ég einu sinni enn í honum (þegar hann var aðeins farin að frjósa í köntunum) og setti í lokað box. Nú hlakka ég bara til að prófa epla köku/pæ hér: http://www.helpforibs.com/messageboards/ubbthreads/showthreaded.php?&Board=recipe&Number=153232 þetta fær góða dóma og það er örugglega gott að setja smá kanil í deigið og kanilsykur yfir. Jummí!!
Hmmm... það virðist ekki virka að setja linka inn í pósta, en það er þá bara hægt að afrita hlekkinn og líma.

Sunday, December 11, 2011

Hvernig gengur

Nú er ég búin að halda matardagbók í rúman mánuð og margt er eins og ég hef fundið áður. Margt hef ég kannski ekki enn þorað að prófa og sumt enn á gráu svæði. Nú hef ég líka fengið acacia duftið frá henni Heather Van Vorous (sjá hér). Ég finn að ef ég tek of stóran skammt strax, þá fer maginn í mér í mikið "rumble", en í réttum skömmtum virkar það fínt. Kannski ekki ósvipað og Magnesia medicið er að gera. Spurning um að minnka skammtinn af því vs að stækka skammtinn af acacia duftinu. Eitt sem ég hef tekið eftir er að ég er oft að fá í magann eftir fisk. Sem mér finnst skrítið, því skv. Heather á fiskur að vera í góðu lagi. Stress er að sjálfsögðu að hafa mikil áhrif. Á tímabili prófaði ég að taka ger út, hélt að það væri e.t.v. að hafa áhrif á sveppasýkingar hjá mér. En mér finnst það ekki hafa nein áhrif og held að sveppasýkingarnar séu í raun eitthvað annað ótengt. Ég reyni að sneiða hjá mjólkurmat eins og ég get. Er t.d. alveg hætt að borða ost ofan á brauð, sem mér fannst mjög erfitt fyrst, en er núna komin í nokkuð góða rútínu með. Ég byrjaði líka að taka lýsi en endaði svo á því að taka það út, held að það hafi verið að fara illa í mig. Ég er aðeins farin að þora meira að borða lauk (eldaðan) í mat og hef einnig bætt við mig ávöxtum eins og appelsínum og eplum með ágætum árangri. Borða bara lítið af því í einu og á eftir mat, ekki á tóman maga. Þetta matarræði er oft erfitt að fylgja 100%, sérstaklega í veislum og/eða á veitingastöðum. Þó auðveldara á veitingastöðum. Ég svindla auðvitað stundum en þá oft gerir það mig viðkvæmari í maganum eftir á og í nokkra daga á eftir.
Eitt sem ég tek eftir er að þegar ég fæ krampa eða er með óþægindi, þá ýtir það undir að ég borði meira. Það er eins og mér finnist það róandi fyrir magann að fá meiri mat! Ekki veit ég hvort það er rétt í raun og veru, en þegar ég lít núna yfir matardagbókina mína, þá sé ég þetta mjög greinilega. Annars er ég komin á kaf í aðra pælingu og það er að fara meira yfir í lífrænan mat og snyrtivörur líka, þ.e. reyna að komast hjá þessum heilmiklu aukaefnum sem eru allt í kringum okkur. Nú þarf ég bara að finna útúr því hvernig ég get hætt að nota eitraðar snyrtivörur og samt litið vel út! Meir um það síðar (eða annars staðar).